Trúnaður og þagnarskylda 

Öllum starfsmönnum Varmárskóla ber að virða trúnað og þagnarskyldu gagnvart nemendum sínum og fjölskyldum þeirra, sem og samstarfsfólki og vinnustaðnum.

Varmárskóli er vinnustaður um þúsund einstaklinga og er mikil áhersla lögð á að öllum líði vel. Skólinn starfar eftir uppbyggingastefnunni og við leggjum öll okkar af mörkum við uppbyggingu góðs starfsanda. Við leggjum áherslu á að nálgast störf okkar af fagmennsku og opnum huga, með víðsýni og umburðarlyndi að leiðarljósi.

 

Í Varmárskóla er lögð rík áhersla á trúnaðarskyldur starfsfólks skólans.

Öllum starfsmönnum Varmárskóla ber að virða trúnað og þagnarskyldu gagnvart nemendum sínum og fjölskyldum þeirra, sem og samstarfsfólki og vinnustaðnum. Nýir starfsmenn skrifa undir yfirlýsingu um trúnað og gildir það í öllum störfum á vegum skólans og helst trúnaður þótt látið sé af störfum. Í þessu felst að við ræðum ekki um málefni nemenda eða samstarfsfólks utan skólans eða við aðra aðila en að málum kunnu að koma hverju sinni. Fara verður með öll trúnaðargögn sem viðkomandi hefur aðgang að í störfum sínum með fyllstu varkárni. Athugið að þessi þagmælska nær þó ekki til þeirra atvika sem ber að tilkynna lögreglu eða barnaverndaryfirvöldum samkvæmt lögum.

Allt starfsfólk skólans skal gæta þess að ræða ekki málefni einstakra nemenda á kaffistofu eða öðrum opnum rýmum og velja ávallt faglegan vettvang og rétt umhverfi til þannig samræðna við þá sem að málum þurfa að koma hverju sinni

Fagmennska starfsfólks 

Aðalnámskrá grunnskóla kveður á um ábyrgð og skyldur starfsfólks og kennara. Í því felst að starfsfólk komi til móts við náms- og félagslegar þarfir nemenda og sinni þeim af fagmennsku og alúð. Þetta gerir starfsfólk með því að ígrunda starfið reglulega, leita nýrra leiða, afla sér nýrrar þekkingar og sýna þannig stöðuga viðleitni til að læra og gera betur. Mikilvægt er að starfsfólk sýni nærgætni við nemendur, foreldra og samstarfsfólk í hvívetna.

Allt starfsfólk ber sameiginlega ábyrgð á að veita sem besta þjónustu og stuðla að jákvæðum skólabrag og starfsanda í öllu því skólastarfi með velferð nemenda og öryggi að leiðarljósi. Stjórnendur skólans kappkosta að stuðla að jákvæðum samskiptum og gagnkvæmu trausti allra í skólanum. felast meðal annars í jákvæðu viðhorfi til samstarfsmanna. Stjórnandi skal jafnan leitast við að hafa samráð við starfsmenn sína um málefni vinnustaðarins og beita sér fyrir víðtækri sátt um þau. Stjórnendur bera ábyrgð á störfum starfsmanna og stjórnendur eiga að vinna að þeim markmiðum sem sett hafa verið.

Í 12. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 segir:

„Starfsfólk grunnskóla skal rækja starf sitt af fagmennsku, alúð og samviskusemi. Það skal gæta kurteisi, nærgætni og lipurðar í framkomu sinni gagnvart börnum, foreldrum þeirra og samstarfsfólki“.

Í Aðalnámskrá er rætt um fagmennsku kennara (kafli 1.3)

Fagmennska kennara byggist á sérfræðilegri starfsmenntun, þekkingu, viðhorfum og siðferði starfsins. Fagmennska kennara snýst um nemendur, menntun þeirra og velferð. Markviss samskipti og góð kennsla stuðlar að námi og aukinni hæfni barna og ungmenna. Á kennurum hvílir ekki aðeins sú skylda að miðla þekkingu til nemenda heldur einnig að veita þeim tækifæri til að afla sér þekkingar og leikni, örva starfsgleði þeirra og efla frjóa hugsun. Kennarar leiðbeina börnum og ungmennum í námi og mati á því og vinna að því að þeir tileinki sér heilbrigða lífshætti. Þeir leitast við að skapa góðan skólabrag, réttlátar vinnureglur og hvetjandi námsumhverfi.

Kennarar starfa samkvæmt siðareglum Kennarasambands Íslands og lögum um grunnskóla (Siðareglur kennara)

Í Mannauðsstefnu Mosfellsbæjar er að finna siðareglur starfsfólks Mosfellsbæjar, en þær eru settar með það að markmiði að stuðla að því að starfsfólk sýni hvert öðru, íbúum og viðskiptavinum heiðarleika, ábyrgð, réttsýni og haldi trúnað í samskiptum sín á milli (Mannauðsstefna Mosfellsbæjar).